Fara í efni

Íþróttamaður Skagafjarðar 2020

22.01.2021
Ísak Óli Traustason - Íþróttamaður Skagafjarðar Mynd: UMSS

Frjálsíþróttamaðurinn Ísak Óli Traustason var á dögunum valinn Íþróttamaður ársins í Skagafirði 2020. Kvennalið Tindastóls í knattspyrnu var valið lið ársins og þjálfarar þess, Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson, eru þjálfarar ársins. 

Á heimasíðu UMSS segir: „Síðustu ár hefur íþróttafólkið okkar safnast saman við hátíðlega stund í Ljósheimum milli jóla og nýs árs, ekki varð úr því í þetta skiptið. Við ætlum þó að heiðra þá sem voru tilnefndir og kosnir. Einnig munum við koma til með að afhenda Hvataverðlaun til krakkanna sem fengu tilnefningar frá sínu félagi í ár á árinu og auk þess mun afreksfólkið okkar sem sótti um og fékk styrk úr Afreksmannasjóði UMSS verða afhentur styrkurinn.“

Hér á eftir má sjá góða samantekt frá UMSS yfir tilnefningar og verðlaunahafa, en rétt til að tilnefna íþróttamann, lið og þjálfara ársins í Skagafirði hafa öll aðildarfélög og deildir innan UMSS:

Hvatningarverðlaun UMSS

12 íþróttaiðkendur á aldrinum 12 - 17 ára voru tilnefndir af aðildarfélögum UMSS til Hvatningarverðlauna UMSS 2020. Þessir iðkendur eru áhugasamir, með góða ástundun, sýndu góða hegðun innan vallar sem utan, eru góðir félagar og teljast vera góð fyrirmynd annara unglinga.

Einar Ísfjörð Sigurpálsson
Ungmennafélagið Tindastóll Knattspyrnudeild

Herdís Lilja Valdimarsdóttir
Ungmenna- og Íþróttafélagið Smári

Kristinn Örn Guðmundsson
Hestamannafélagið Skagfirðingur og Ungmenna- og Íþróttafélagið Smári

Margrét Rún Stefánsdóttir
Ungmennafélagið Tindastóll Knattspyrnudeild

Marín Lind Ágústsdóttir
Ungmennafélagið Tindastóll Körfuknattleiksdeild

Marta Birna Eiríksdóttir
Ungmennafélagið Neisti

Stefanía Hermansdóttir
Ungmennafélagið Tindastóll frjálsíþróttadeild

Sævar Snær Birgisson
Ungmennafélagið Neisti

Tómas Bjarki Guðmundsson
Golfklúbbur Skagafjarðar

Una Karen Guðmundsdóttir
Golfklúbbur Skagafjarðar

Þórgunnur Þórarinsdóttir
Hestamannafélagið Skagfirðingur

Örvar Freyr Harðarson
Ungmennafélagið Tindastóll Körfuknattleiksdeild

Afreksmannasjóður UMSS hittist í byrjun desember og fór yfir þær fimm umsóknir sem bárust að þessu sinni. Ákveðið var að veita til fjögurra einstaklinga samtals 320.000 kr. en ein umsóknin uppfyllti ekki skilyrði sjóðsins. Þeir skagfirsku afreksmenn sem hlutu styrk fyrir æfingar og keppni fyrir árið 2019 voru þau Andrea Maya Chirikadzi, Guðmar Freyr Magnússon, Ísak Óli Traustason og Sveinbjörn Óli Svavarsson. Þeir sem sitja í stjórn Afreksmannasjóðs UMSS eru Gunnar Þór Gestsson formaður UMSS, Haraldur Þór Jóhannesson og Ómar Bragi Stefánsson.

Þjálfarar ársins

Til þjálfara ársins voru tilnefndir fjórir aðilar frá þrem félögum/deildum:

Auður Herdís Sigurðardóttir frá Íþrótta- og Ungmennafélaginu Smára og Guðni Einarsson og Jón Stefán Jónsson frá Knattspyrnudeild Tindastól og Sigurður Arnar Björnsson frá Frjálsíþróttadeild Tindastól.

Þjálfarar ársins er dúóið Guðni og Jónsi sem þjálfuðu meistaraflokk kvenna hjá Tindastól knattspyrnudeild og komu þeim upp í Inkasso-deildina að ári.

Lið ársins

Til liðs ársins voru tilnefnd 2 lið í ár:

Kvennasveit GSS frá Golfklúbbi Skagafjarðar. Þær lentu í 6.sæti í 1. deild Íslandsmótsins þar sem bestu kylfingar landsins voru að taka þátt en í sveitakeppni í golfi keppa hverju sinni sex einstaklingar og verður því að vera mikill breidd í þeim liðum sem keppa hverju sinni. GSS hefur á að skipa mjög ungu liði með þrjá reynslubolta en fimm ungar stelpur. Í liðinu eru einungis konur sem búsettar eru í Skagafirði. Það verður spennandi að fylgjast með kylfingum í GSS á komandi árum og árangurinn ber starfi klúbbsins gott vitni.

Meistaraflokkur kvenna frá Knattspyrnudeild Tindastóls. Uppgangur liðsins síðustu ár hefur verið magnaður og var toppnum og langþráðu markmiði náð þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild fyrir keppnistímabilið 2021. Kjarninn í liðinu hefur að mestu verið stelpur úr Tindastól sem gerir árangurinn enn sætari.

Lið ársins er Meistaraflokkur kvenna frá Knattspyrnudeild Tindastóls.

Íþróttamaður ársins

Til Íþróttamanns ársins voru tilnefndir fjórir aðilar:

Arnar Geir Hjartarson kylfingur hjá Golfklúbbi Skagafjarðar, Bjarni Jónasson hestamaður frá Hestamannafélaginu Skagfirðing, Bryndís Rut Haraldsdóttir fótboltakona hjá Knattspyrnudeild Tindastóls og Ísak Óli Traustason frjálsíþróttamaður hjá Frjálsíþróttadeild Tindastóls.

Úrslit í kjöri íþróttamanns Skagafjarðar:

Arnar Geir Hjartarson, kylfingur lenti í þriðja sæti með 30 stig. Arnar lenti í 24. sæti af 117 keppendum á Íslandsmótinu í golfi 2020.

Bryndís Rut Haraldsdóttir, knattspyrnumaður varð í öðru sæti með 66 stig, en Bryndís er fyrirliði meistaraflokks kvenna hjá Tindastól í knattspyrnu, en þær tryggðu sér sæti í Inkasso-deildinni að ári.

Ísak Óli Traustason var kjörin Íþróttamaður UMSS 2020 með 75 stig, Ísak Óli er margfaldur Íslandsmeistari í frjálsum íþróttum og er í landsliði Íslands í spretthlaupum, langstökki og fjölþraut.

 

Sveitarfélagið Skagafjörður óskar öllu þessu frábæra afreksfólki til hamingju.