Jóladagskrá 30. nóvember - 7. desember
Árlega setur Sveitarfélagið Skagafjörður saman jóladagskrá þar sem viðburðir á aðventu, jól og áramót eru birtir. Dagskráin er birt vikulega í Sjónhorninu sem er dreift á öll heimili á Norðurlandi vestra.
Fyrsta hluta dagskrárinnar má finna hér. Sú dagskrá er frá 30. nóvember til 7. desember.
Í ár eru 70 ár liðin frá því að Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi. Af því tlefni býður Sveitarfélagið Skagafjörður upp á afmælisköku og kaffi í húsnæði Náttúrustofu sem áður hýsti barnaskólann, á laugardaginn frá kl. 14:00-15:30.
Jólaljós verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi kl. 15:30 á laugardag. Að þessu sinni er jólatréð ræktað í heimabyggð og kemur úr skógi Skógræktarinnar í Reykjarhóli. Gróðursetning þar hófst árið 1947 eða sama ár og Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi.
Á Kirkjutorginu mun barnakór Varmahlíðarskóla syngja jólalög og Lydía Einarsdóttir syngja lagið Rúdolf með rauða nefið við undirleik Stefáns Gíslasonar. Þá mun Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs flytja hátíðarávarp.
Hinn landsþekkti tónlistarmaður Pálmi Gunnarsson mun syngja nokkur lög við undirleik Stefáns Gíslasonar og hljómsveitar og að því loknu munu tveir nemendur Varmahlíðarskóla tendra ljósin á trénu.
Fréttir hafa borist af því að jólasveinarnir verði komnir til byggða og gerum við ráð fyrir að þeir hafi eitthvað í pokahorninu.
Auk þessa verður fjölmargt um að vera í bænum á laugardaginn, sem og um allan fjörð, alla vikuna.
Við hvetjum alla til að fjölmenna í bæinn í jólaskapi!