Jólastemming
Nú styttist í jólahátíðina og ýmislegt hægt að taka sér fyrir hendur, smakka á gómsætum veitingum og hlusta á hljómþýða tónlist. Jólatrjáasala Tindastóls er hafin á Eyrinni og notaleg stemming verður í Sparisjóði Skagafjarðar í dag í samvinnu við Sauðárkróksbakarí. Skagfirski kammerkórinn mætir kl 17:30 og tekur nokkur lög. Opið er alla daga í Gallerý Alþýðulist í Varmahlíð. Vinnustofan í Gúttó er opin á laugardaginn þar sem listamenn í Sólon taka á móti gestum og karlakórinn Heimir mun taka lagið í Skagfirðingabúð og Dvalarheimilinu seinnipart laugardagsins. Á sunnudaginn er gamli bærinn í Glaumbæ opinn frá 12-17 og boðið til rökkurgöngu kl 15:30. Áskaffi er opið á sama tíma þar sem boðið verður upp á hangikjöt í hádeginu og síðan kaffihlaðborð. Á Þorláksmessunni verður hægt að komast í skötuveislu í Sveinsbúð hjá Skagfirðingasveit og á fleiri stöðum og ekki má gleyma Bögglahúsi jólasveinanna í Safnaðarheimilinu. Nánari dagskrá er hér.