Jónsmessuhátíð á Hofsósi um helgina
Jónsmessuhátíðin á Hofsósi er um helgina og margt í boði til afþreyingar. Dagskráin hefst formlega kl 17 með félagsmóti Svaða á Hofsgerðisvelli og síðan er Jónsmessuganga kl 18 undir leiðsögn Þórdísar Friðbjörnsdóttur. Milli kl 19 og 20 er í boði íslensk kjötsúpa og kvöldvakan hefst kl 21:30. Margir munu stíga á stokk m.a. félagar ú Leikfélagi Hofsóss, Gunni Rögg og Sigvaldi og Jóhanna Sveinbjörg sem lætur gamminn geysa. Síðan verður opið hús í Höfðaborg þar sem Þórunn og Halli leika fyrir dansi.
Laugardagurinn hefst með knattspyrnumóti Neista á Hofsósvelli þar sem keppt verður í tveimur deildum. Finnur Sigurbjörnsson verður með myndlistarsýningu, tjaldmarkaður opnar kl 12, hópreið hestamanna er kl 13, góðakstur á dráttarvélum kl 15 og grillveisla milli kl 16:30 og 19. Dagurinn endar með stórdansleik í Höfðaborg þar sem Matti Matt og vitleysingarnir leika fyrir dansi.