Fara í efni

Komdu á safn í vetrarfríinu

14.10.2020

Undanfarin ár hefur Byggðasafn Skagfirðinga verið með dagskrá í vetrarfríi grunnskólanna í Skagafirði. Vegna ástandsins í samfélaginu sjáum við okkur ekki fært að vera með viðburð í sama formi og áður en viljum samt sem áður hvetja fjölskyldur til að koma og njóta útivistar og samverustundar á fallegu safnasvæðinu í Glaumbæ dagana 15. til 16. október. Hægt er að koma hvenær sem er á opnunartíma safnsins yfir vetrarfríið og fara í fróðlegan og skemmtilegan ratleik, skrá svörin og senda á netfangið byggdasafn@skagafjordur.is. Þeir sem hafa öll svör rétt fá smá verðlaun senda í pósti. Safnið er opið frá kl. 10-16.

Við efnum til myndasamkeppni á samfélagsmiðlum yfir vetrarfríið þar sem þátttakendur taka myndir á safnasvæðinu en verðlaunað verður fyrir frumlegustu myndina í þjóðlegum anda. Börn sem fullorðnir hvattir til að birta skemmtilegar og áhugaverðar myndir og merkja þær #vetrarfriglaumbae2020 til að taka þátt. Einnig er hægt að senda myndir á netfang safnsins. Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Til að hægt er að birta efni á Facebook og Instagram þarf reikningurinn eða myndin að vera opin svo hún sjáist. Frítt er fyrir börn og fullorðna í fylgd með börnum. Gestir eru minntir á að virða fjarlægðarmörk. Allir sameiginlegir snertifletir verða sótthreinsaðir reglulega. Við hvetjum safngesti okkar, sem og landsmenn alla, að hafa það hugfast að við erum öll almannavarnir.

Í Áskaffi verður hægt að fá rjúkandi heitt súkkulaði og pönnuköku á tilboðsverði, á 500 krónur. Vegna fjöldatakmarkana er einungis hægt að panta fyrirfram í s: 699 6102. Ekki verður unnt að taka á móti gestum án pöntunar. 

/Fréttatilkynning