Fara í efni

Kveikt á jólatrénu á Króknum

28.11.2014
Ekið í hestvagni 2004

Það er alltaf stemming fyrstu aðventuhelgina þegar ljósin eru tendruð á trénu á Kirkjutorgi en tréð er gjöf frá vinabæ Skagafjarðar Kongsberg. Verslanir og fyrirtæki verða opin um allan bæ og ýmislegt á boðstólum m.a. heitt kakó sem er ómissandi við svona tækifæri. Maddömurnar bjóða að vanda upp á kjötsúpu, skátarnir verða í Landsbankanum, vinnustofa myndlistafélagsins Sólons verður opin í Gúttó og Hard Wok Café býður nýjan jólaíspinna og svo mætti lengi telja.

Meðan unga kynslóðin bíður eftir jólasveinunum verður boðið upp á akstur í hestvagni í námunda við Kirkjutorg frá kl 13:30 þar til formlega dagskráin hefst kl 15:30. Aðalgatan verður lokuð fyrir bílaumferð frá Kambastíg og að Skagfirðingabraut við Skólastíg frá kl 13-17.

Á sunnudaginn eru hátíðarguðþjónustur í Hofsós- og Sauðárkrókskirkjum og aðventuhátíð í Miklabæjarkirkju. Áskaffi býður upp á hangikjöt í hádeginu og sýningin á efri hæðinni verður opin.

Það er úr ýmsu að velja en hér er dagskrá vikunnar.