Kvöldopnun í Aðalgötunni og hátíðarhöld í Kakalaskála
Það verður notaleg stemming í Aðalgötunni á Sauðárkróki í kvöld og hátíð í Kakalaskála á morgun í tilefni dags íslenskrar tungu.
Fyrirtæki í Aðalgötunni ætla að vera með opið í kvöld, föstudagskvöldið 15. nóvember, kl 20-22. Ýmislegt verður til skemmtunar og því tilvalið fyrir gesti og gangandi að rölta í bæinn og njóta mannlífsins. Í safnaðarheimilinu verður opinn markaður og rennur ágóði sölunnar til styrktar aðgerðum í aðgengismálum hússins.
Á morgun, laugardaginn 16. nóvember, verður dagskrá í Kakalaskála í tilefni dags íslenskrar tungu og hefst dagskráin kl 20. Að þessu sinni verður fjallað um Jón Árnason þjóðsagnasafnara og eru það Skagfirski kammerkórinn og nemendur 7. bekkjar Varmahlíðarskóla sem sjá um flutningin í tali og tónum og minnast Jóns og íslenskra þjóðsagna.
Eftir kaffihlé verður bókaspjall þar sem Sigurður Hansen kynnir nýútkomna ljóðabók sína, Glóðir, og Sæbjörg Freyja Gísladóttir kynnir bók sína, Er það hafið eða fjöllin? um Flateyri og fólkið þar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.