Lagning ljósleiðara í dreifbýli Skagafjarðar
Um mánaðarmótin október / nóvember hófst vinna við lagningu ljósleiðara á Langholti og í Sæmundarhlíð, nánar tiltekið á svæðinu frá Varmahlíð að Marbæli auk Sæmundarhlíðar.
Ljósleiðarinn er að hluta til dreginn í rör sem lögð voru samhliða lagningu hitaveitu í Sæmundarhlíð og á kaflanum frá gamla pósthúsinu í Varmahlíð að Grófargili. Annars staðar er ljósleiðarinn plægður beint niður í jörðina án hlífðarrörs.
Verktaki við verkið eru Vinnuvélar Símonar ehf. og hefur vinna við plægingu gengið nokkuð vel og ekki hefur veðrið verið til mikilla trafala fram að þessu.
Lagningu stofnstrengs um svæðið er lokið og búið er að draga ljósleiðara í rör í Sæmundarhlíð. Unnið er að lagningu heimtauga þar sem ljósleiðarinn er lagður frá stofnstreng og inn til notenda. Stefnt er á að lagningu heimtauga verði lokið fyrir áramót og að ljósleiðarinn verði tekinn í notkun í byrjun næsta árs.
Alls verða um 45 hús tengd ljósleiðara að þessu sinni. Verkefnið er hluti af átakinu Ísland ljóstengt sem er landsátak stjórnvalda í uppbyggingu ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða í dreifbýli. Verkefnið hófst formlega síðastliðið vor með 450 milljón króna styrkveitingu fjarskiptasjóðs til 14 sveitarfélaga sem hlutskörpust urðu í samkeppni um þann styrk. Sveitarfélagið Skagafjörður fékk úthlutað tæpri 21 milljón vegna verkefnisins frá fjarskiptasjóði. Við þá upphæð bætast heimtaugagjöld notenda og framlag fjarskiptafyrirtækis til að fjármagna verkið í heild sinni.
Nú hefur verið opnað fyrir umsóknarferli vegna styrkveitinga í verkefnið Ísland ljóstengt fyrir árið 2017 og mun Sveitarfélagið Skagafjörður sækja um styrki vegna áframhaldandi uppbyggingar ljósleiðaravæðingar í dreifbýli. Nýtt verða samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum, m.a. hitaveituframkvæmdum svo að verkið verði unnið á sem hagkvæmastan hátt.