Fara í efni

Langferðabíll á viðureignir Hauka og Tindastóls og Skagafjarðar gegn Fljótsdalshéraði

09.04.2015

Sveitarfélagið SkagafjörðurÁ morgun verður mikið um að vera í Hafnarfjarðarhreppi og nágrenni því þá eigast annars vegar við Haukar úr Hafnarfirði og Tindastóll í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik, og hins vegar Skagafjörður og Fljótsdalshérað í undanúrslitum Útsvars, spurningakeppni sveitarfélaganna.

Leikurinn í körfunni er önnur viðureign liðanna en Tindastóll vann fyrstu viðureignina sl. þriðjudagskvöld á Sauðárkróki. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslitin. Einn sigur dugar hins vegar til í Útsvarinu til að komast í úrslitaviðureignina þar.

Í tilefni viðureignanna leggur langferðabíll af stað suður yfir heiðar kl. 14 á morgun frá íþróttahúsinu á Króknum (að vestanverðu) og eru stuðningsmenn skagfirsku liðanna hvattir til að grípa tækifærið og hvetja sín lið til sigurs syðra á morgun. Sveitarfélagið Skagafjörður mun bjóða upp á fría sætaferð en áhugasamir eru beðnir að skrá sig á netfangið barmahlid5@gmail.com.

Við hvetjum knáa og klára Skagfirðinga til dáða en skagfirsku keppnisliðin eru klár í leikinn, klár í kollinum og ætla að klára viðureignirnar með sóma.

Áfram Skagafjörður!