Fara í efni

Laufskálaréttarhelgin framundan

27.09.2018
Frá Laufskálarétt

Drottning íslenskra stóðrétta, Laufskálarétt, verður haldin nú um helgina.

Af því tilefni verður margt um að vera á svæðinu um helgina. Fjörið hefst í kvöld kl. 20:30, en þá hefst stórsýning og skagfirsk gleði í Reiðhöllinni Svaðastöðum við Sauðárkrók þar sem hestar, gleði, söngur og glaðlyndir gestir verða í fyrirrúmi. Eftir skemmtun er svo tilvalið að skella sér á dúndurball með Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar á Mælifelli á Sauðárkróki eða þrusuball í Miðgarði í Varmahlíð þar sem Hljómsveit kvöldsins spilar á efri hæðinni. Smölun fer svo fram í Kolbeinsdal á morgun og verður stóðið rekið þaðan og í Laufskálarétt upp úr kl. 11:30. Réttarstörf hefjast kl. 13.

Laufskálaréttarballið, fjölmennasta sveitaball landsins, verður svo haldið í Reiðhöllinni Svaðastöðum við Sauðárkrók kl. 23 annað kvöld. Hljómsveitin Stuðlabandið ásamt Jónsa í Svörtum fötum sjá um stuðið. Forsala miða er á N1 á Sauðárkróki og 16 ára aldurstakmark er á ballið.

Það verður líka mikið fjör á Hótel Varmahlíð annað kvöld þar sem Geirmundur Valtýsson og félagar halda uppi stuðinu fram á nótt.

Á sunnudaginn er svo tilvalið að koma við á  Bændamarkaði í Pakkhúsinu á Hofsósi. Þar verður boðið upp á fjölbreytt úrval afurða sem framleiddir eru á svæðinu.

Það verður sannanlega líf og fjör vítt og breitt um héraðið þessa helgina.