Leiðbeiningar vegna gangna og rétta vegna COVID-19
10.09.2021
Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir göngur og réttir vegna COVID-19.
Heilbrigðisráðuneytið hefur gefið út almenna undanþágu varðandi fjöldatakmörk í réttum en í stað 200 manna fjöldatakmörkunar verður miðað við 300 manns. Almenna reglan fyrir árið 2021 er að aðeins þau sem hafa hlutverk mæti í göngur og réttir. Börn fædd 2016 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkun. Aðgangur að réttum er takmarkaður við hlið og aðeins þau sem þangað eiga erindi verður hleypt inn á svæðið.
Gátlisti fyrir göngur
- Almenna reglan er að eins fáir fari í göngur og hægt er. Mælt er með að það liggi fyrir listi um hvaða einstaklingar fari í göngur með upplýsingum sem nota má til að hafa samband við viðkomandi einstakling gerist þess þörf.
- Fjallaskálar/húsnæði er aðeins opið fyrir gangnamönnum. Aðrir gestir mega ekki vera í húsnæðinu á sama tíma.
- Allir smalar skulu hafa andlitsgrímur og handspritt meðferðis.
- Þeir sem taka þátt í göngum og réttum skulu hlaða niður smáforritinu Rakning C-19.
- Takmarka skal samskipti milli ólíkra smalasvæða eins og kostur er.
Gátlisti fyrir réttir
- Tryggt skal að þeir sem taka þátt í réttarstörfum hafi verið upplýstir um ábyrgð einstaklinga gagnvart eigin smitvörnum:
- Halda 1 metra fjarlægðarmörk frá öðrum innandyra.
- Nota andlitsgrímur þegar ekki er hægt að halda 1 metra fjarlægðarmörk innan dyra.
- Þvo hendur eða nota handspritt eftir að mengað yfirborð hefur verið snert.
- Þekkja hvernig á að bregðast við ef grunur vaknar um smit.
- Þekkja hvar hægt er að finna frekari upplýsingar um COVID-19 og um viðbrögð.
- Mælst er til að skipaður sé einn smitvarnarfulltúri í hverri rétt. Hann ber ábyrgð á smitvörnum og tryggir að farið sé að fyrirmælum. Þetta getur hvort sem er verið leitarstjóri/fjallkóngur, réttarstjóri eða aðili skipaður af sveitarstjórn.
- Við hverja rétt skal tryggja eins góða aðstöðu til handhreinsunar eins og mögulegt er.
- Á þeim smalasvæðum þar sem allar líkur eru á að það þurfi fleiri en 300 manns til réttarstarfa þarf að skipuleggja hverjir koma í réttina og óska eftir undanþágu frá fjöldatakmörkunum til heilbrigðisráðuneytisins á hrn@hrn.is. Við skipulagningu væri t.d. hentugt að útbúa lista yfir þátttakendur og aðeins þeim hleypt inn á svæðið sem eru á listanum.
- Við innkeyrslu að rétt þarf að telja alla sem þangað koma. Tryggja skal að fjöldi fari ekki umfram hámarksfjölda samkvæmt reglum heilbrigðisráðuneytis (HRN) um hámarksfjölda einstaklinga í sama rými á hverjum tíma.
- Heimilt er að skipta út fólki meðan á réttarstörfum stendur þó þannig að fylgt sé reglum um hámarksfjölda einstaklinga í sama rými á hverjum tíma (þ.e.a.s. telja inn og út þannig að á hverjum tíma séu aldrei fleiri en hámarksfjöldi leyfir hverju sinni).
- Sé veitingasala til staðar þarf að tryggja að 1 metra nándarregla sé virt og að fjöldi gesta í veitingarými fari ekki yfir leyfilegt hámark samkvæmt reglugerð HRN á hverjum tíma.