Leikskólinn Barnaborg lokar tímabundið
Undir lok síðustu viku kom í ljós að myglusveppur og raki hafa myndast undir þaki leikskólans Barnaborgar á Hofsósi. Óværan er í þeim mæli að ekki er talið forsvaranlegt að starfrækja leikskólann þar á meðan málið er skoðað nánar og vandinn leystur með öruggum hætti.
Fræðslunefnd og Byggðarráð sveitarfélagsins funduðu um málið á sunnudag og ákveðið var að loka byggingunni. Málið var kynnt á fundi starfmanna með formönnum nefndanna ásamt sveitarstjóra og fræðslustjóra á sunnudag og á fundi með foreldrum leikskólabarnanna á sunnudagskvöld. Þeim foreldrum sem geta og vilja nýta sér til bráðabirgða leikskólapláss á Hólum var boðið það, en jafnframt var þegar hafin leit að hentugu bráðabirgðahúsnæði fyrir leikskólann á Hofsósi. Ákveðnar lausnir eru í sjónmáli sem ekki er hægt að greina frá að svo stöddu. Reiknað er með að niðurstaða fáist á allra næstu dögum og í kjölfarið verður farið í nauðsynlegar aðgerðir svo leikskólinn geti opnað aftur hið fyrsta. Það er þó ljóst að undirbúningur og flutningur mun taka einhvern tíma þannig að foreldrar þurfa að sýna biðlund og gera viðeigandi ráðstafanir vegna sinna barna. Ómögulegt er að segja hve langan tíma það tekur en ljóst að það verður ekki í þessari viku og varla þeirri næstu heldur.