Lestrarstefna Skagafjarðar hefur litið dagsins ljós
Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að gerð Lestrarstefnu Skagafjarðar. Starfsfólk skólanna tók þátt í gerð stefnunnar en svokallað læsisteymi, sem í sátu fulltrúar leik-, grunn- og tónlistarskóla, hélt utan um vinnuna undir stjórn Sigurlaugar Rúnar Brynleifsdóttur, deildarstjóra við Grunnskólann austan Vatna.
Lestrarstefnan verður kynnt öllu starfsfólki leik-, grunn- og tónlistarskóla á fræðsludegi sem haldinn verður í Miðgarði nk. þriðjudag. Í framhaldi af fræðsludeginum verður eintak af stefnunni sent inn á öll heimili leik- og grunnskólabarna í Skagafirði, ásamt því sem hún verður aðgengileg öllum á rafrænu formi á heimasíðum skólanna og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Markmið lestrarstefnu Skagafjarðar eru að efla læsi í tónlistar-, leik- og grunnskólum í Skagafirði, skapa samfellu í læsisnámi barna og byggja ofan á þann grunn sem fyrir er, ásamt því að efla samstarf við heimilin á sviði lestrar.