Fara í efni

Líf og fjör í Skagafirði um helgina

24.06.2016
Iðandi mannlíf í Aðalgötunni á Króknum

Það er mikið um að vera í Skagafirði um helgina og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Lummudagar, tónlistarhátíð og fótboltamót.

Lummudagarnir hófust í gær og er skrautlegt um að litast í héraðinu enda hafa margir íbúar og fyrirtæki skreytt í sínum litum. Í dag verður sápubolti neðan við Túnahverfið á Sauðárkróki og eru íbúar hvattir til að slá upp götugrilli í sínum götum. Í kvöld verða tónleikar VSOT í Bifröst á Sauðárkróki þar sem fram koma Villtir svanir og tófa, Dætur Satans og Contalgen Funeral ásamt fleiri góðum tónlistarmönnum.

Á laugardaginn verður fjölskylduskemmtun hjá Crossfit 550 að Borgarflöt 5 kl 13 og á sama tíma verður barnaskemmtun í Sauðárkrókskirkju þar sem Hafdís og Klemmi koma fram. Kl 14 hefst götumarkaður í Aðalgötunni á Króknum með markaðsstemmingu og lifandi tónlist og einhver fyrirtæki verða með uppákomur í tilefni Lummudaga. BMX Brós verða með sýningu og námskeið við Aðalgötuna kl 19.

Tónlistarhátíðin Drangey Music festival verður á Reykjum á Reykjaströnd á laugardagskvöldinu og hefst kl 20:30. Þar koma fram Úlfur, Úlfur, Beebee and the bluebirds, Stebbi og Eyfi, Sverrir Bergmann og Retro Stefson.

Á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki fer fram Landsbankamót stúlkna í fótbolta um helgina, fjölskylduhátíð harmonikuunnenda er á Steinsstöðum og sunnudagstónleikar í Hóladómkirkju. Það er því úr mörgu að velja.

Góða helgi!