Lífsins gæði og gleði í Skagafirði um helgina
Atvinnu-, mannlífs- og menningarhátíðin Lífsins gæði og gleði hefst í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 26. apríl kl 10. Þar verða fyrirtæki og félagasamtök og kynna þjónustu sína, framleiðslu og menningu. Það verður tekið til kostanna í reiðhöllinni Svaðastöðum kl 13 þar sem nemendur Hólaskóla verða með kennslusýningu og kl 20. Íslenski þjóðbúningurinn verður kynntur í Húsi frítímans kl 14 og gaman væri ef gestir mættu í þjóðbúningi ef þeir hafa tök á því. Maddömmukot verður opið milli kl 14 og 17, myndlistarsýningin í Gúttó og trúbbaball á Mælifelli.
Á sunnudeginum hefst Lífsins gæði og gleði kl 10 og verður Sæluvikan sett á sviðinu í íþróttahúsinu kl 14. Byggðasafn Skagfirðinga verður með opinn dag í Glaumbæ og Áskaffi, það verður bíósýning í Króksbíó og grunnskólamót í hestaíþróttum í reiðhöllinni. Á sunnudagskvöldinu kl 20 frumsýnir síðan leikfélag Sauðárkróks verkið Rjúkandi ráð eftir Jónas Árnason, Jón Múla Árnason og Stefán Jónsson en leikstjóri er Jóel Ingi Sæmundsson.