Lionsklúbbarnir í Skagafirði afhenda skynörvunarherbergi í Iðju
Á þessu ári heldur alþjóða Lionshreyfingin upp á 100 ára afmæli og af því tilefni voru allir klúbbar innan hreyfingarinnar hvattir til að ráðast í verkefni sem er stærra en venja er.
Lionsklúbbarnir fjórir sem starfandi eru í Skagafirði hafa undanfarna mánuði staðið fyrir fjáröflun fyrir skynörvunarherbergi í Iðju dagþjónustu. Klúbbarnir héldu kótilettukvöld í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 29. apríl sl. þar sem fjöldi manns mætti til að borða góðan mat, njóta skemmtidagskrár og styrkja gott málefni. Auk þess var opnaður styrkarreikningur fyrir söfnunina þar sem öllum gafst kostur á því að leggja málefninu lið.
Í dag, föstudaginn 3. nóvember, fór fram formleg afhending skynörvunarherbergisins. Magnús Svavarsson, fráfarandi formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks afhenti Ástu Pálmadóttur, sveitarstjóra gjafabréf fyrir skynörvunarherberginu og áritaðan skjöld sem settur var upp í húsnæði Iðju. Að afhendingu lokinni buðu Lionsklúbbarnir starfsfólki og notendum Iðju og öðrum sem voru upp á veitingar.
Sveitarfélagið Skagafjörður vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til Lionsklúbbanna í Skagafirði fyrir þeirra óeigingjarna framlag.
Mánudaginn 4. desember frá kl. 10-15 verður Iðja með opið hús í tilefni af Alþjóðadegi fatlaðs fólks. Þá mun öllum gefast kostur á að heimsækja Iðju og skoða nýja skynörvunarherbergið.
Skynörvunarherbergi er rými sem á að örva skynfæri einstaklings, sjón, heyrn, lykt, bragð og snertingu í umhverfi sem er öruggt, friðsælt og afslappandi. Slík rými eru eins og nafnið gefur til kynna sérstaklega fyrir þá sem eiga við ýmiskonar skyntruflanir að stríða og/eða eru með skerta líkamsstarfsemi eða líkamsvitund.
Hagnýtt gildi aðferðarinnar er ótvírætt og má þar nefna:
- Veitir fjölþætta skynjunarupplifun
- Skapar rólegt og afslappandi umhverfi
- Veitir möguleika á tengslum, hlýju og nærveru
- Skynáreiti sem örvar og styrkir taugakerfið
- Getur minnkað sjálfsörvandi hegðun
- Einbeiting getur aukist
- Dregur úr spennu
- Vekur áhuga
Skynörvunarherbergi hafa reynst vel einstaklingum með alvarlega fötlun s.s. þroskahömlun, einhverfi, hreyfihömlun, daufblindu, sjónskerðingu og fólki með elliglöp og alzheimer. Herbergin henta börnum jafnt sem fullorðnum.