Fara í efni

Ljómarall á laugardag

27.07.2017
Mynd af Facebook síðu Bílaklúbbs Skagafjarðar /gjonag

Bílaklúbbur Skagafjarðar stendur fyrir Ljómaralli í Skagafirði laugardaginn 29. júlí. Keppnin er sú þriðja í röðinni í Íslandsmótinu og fer fram samkvæmt reglum Akstursíþróttasambands Íslands sem fyrir liggja á www.akis.is.

Keppnin er fram með hefðbundnu sniði og verða eftirfarandi vegir lokaðir laugardaginn 29. júlí 2017, sem hér segir:

Kl. 08:10-13:00: Vegur nr. 35 um Mælifellsdal / Mælifellsdalsvegur F756 um 4,5 km frá Efribyggðarvegi nr. 751 eð Bugavatni. Við þetta lokast einnig aðkoma af vegslóða um Gilhagadal inn á fyrrnefndan veg.

Kl. 13:00-15:00: Vegur nr. 752 / F752 Skagafjarðarleið frá afleggjara til móts við Litlu-Hlíð / Hof og Hofsvelli að Þorljótsstöðum. Þessi vegur er í raun nyrsti hluti af Sprengisandsleið, Skagafjarðarmegin.

Kl. 15:45-17:00: Vegur um Nafir innanbæjar á Sauðárkróki, ofan (vestan) við elsta hluta bæjarins. Leiðin verður afmörkuð með merkingum.

Vegfarendum er skylt að virða lokanir og fyrirmæli starfsmanna keppninnar.

Bílaklúbburinn hvetur bæjarbúa og aðra gesti til að koma sér fyrir með nesti, jafnvel myndavél og horfa á keppnina, það er hin besta skemmtun. Bent er á að koma sér fyrir áður en leiðir loka og hafa eftirfarandi í huga:

  • Vera í hæfilegri fjarlægð - ekki of nærri.
  • Ekki vera utan í beygjum.
  • Verið gjarnan á stað sem er hærri en vegurinn, ekki neðar.
  • Hafið auga með börnunum og góða skemmtun!

Þeir sem vilja horfa á eða fá nánari upplýsingar um keppnina er bent á Facebook síðu Bílaklúbbs Skagafjarðar.

Birting úrslita, endamark og verðlaunaafhending verður við Skagfirðingabúð kl. 17.

Keppnisstjóri er Arnar Freyr Árnason.