Ljósin tendruð á jólatrénu um helgina
Fyrsti sunnudagur í aðventu er um helgina og því verða ljósin tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi á laugardaginn kl 15:30. Jólatréð þetta árið kemur úr svokölluðum hátíðarreit í Skógarhlíðinni ofan við Sauðárkrók og verður dagskráin með hefðbundnum hætti, söngur, dans og jólasveinar.
Það verður mikið um að vera allan laugardaginn og opið í fyrirtækjum við Aðalgötuna. Jólamarkaður Matarkistu Skagafjarðar, matur úr héraði, verður í neðri salnum í KK Restaurant, opið í Maddömukoti, skátakakó í Landsbankanum, piparkökuskreytingar í Gránu og ýmislegt til sölu í Safnaðarheimilinu til styrktar aðgengismálum hússins ásamt ýmsu öðru.
Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks verður í íþróttahúsinu milli kl 12 og 14, leikur í 1. deild kvenna í körfu kl 18 og lokasýning Nemendafélags FNV á Mamma Mia í Bifröst kl 20.
Á sunnudaginn verður annar leikur í 1. deild kvenna í íþróttahúsinu, jólabingó Foreldrafélags Barnaborgar á Hofsósi í Höfðaborg, afmælisfagnaður Kvenfélagsins Framtíðar á Ketilási og bíósýningar í Bifröst, Frozen 2 og Last Christmas.
Nánari dagskrá laugardagsins 30. nóvember, Ljósin tendruð, aðventustemming í gamla bænum og nágrenni.