Ljósleiðaravæðing í dreifbýli Skagafjarðar
Þriðjudaginn 28. febrúar var gengið frá samningi á milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Fjarskiptasjóðs um styrkúthlutun til uppbyggingar ljósleiðarakerfa í dreifbýli á árinu 2017. Sveitarfélagið Skagafjörður fékk úthlutað alls 53.838.800 kr. fyrir 151 tengda staði. Að auki hefur Sveitarfélaginu Skagafirði verið úthlutað 9,8 milljónum úr byggðasjóði til uppbyggingar ljósleiðara í dreifbýli. Það er því ljóst að á árinu 2017 verður stigið stórt skref í ljósleiðaravæðingu dreifbýlis í Skagafirði. Vinna við skoðun og hönnun á þeim svæðum þar sem ljósleiðari verður lagður að þessu sinni er hafin og mun niðurstaða þeirrar vinnu verða kynnt innan tíðar.
Árið 2016 fékk Sveitarfélagið Skagafjörður úthlutað styrkjum til tenginga á 45 stöðum á Langholti, frá Varmahlíð að Marbæli, auk Sæmundarhlíðar. Lagningu ljósleiðara er lokið á því svæði og er vinna við tengingar ljósleiðarans hafin.
Indriði Þór Einarsson, sviðstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar ásamt Haraldi Benediktssyni, formanni fjarskiptasjóðs og Jóni Gunnarssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Undirritunin fór fram í húsakynnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og var fulltrúum allra sveitarfélaga sem hlutu styrk á þessu ári boðið til undirritunar samninga. Sjá frétt á vef Sambandsins;