Fara í efni

Leiksýning fyrir 5-6 ára börn í boði Þjóðleikhússins

01.11.2016
Lofthræddi örninn Örvar

Nú á haustmánuðum hefur Þjóðleikhúsið lagt land undir fót og boðið 5-6 ára börnum víðs vegar um landið að njóta barnasýningar í boði leikhússins. Með þessu vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum heim leikhússins, því leikhúsferðir geta veitt ungum sem öldnum mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika til að takast á við lífið og tilfinningar okkar.

Sýningin heitir Lofthræddi örninn hann Örvar. Leikgerðin er eftir Stalle Ahrreman og Peter Engkvist, en Björn Ingi Hilmarsson er leikstjóri sýningarinnar. Þýðinguna gerði Anton Helgi Jónsson. Oddur Júlíusson leikur öll hlutverkin og segir söguna með látbragði, söng, dansi og leik. Leikritið fjallar um Örvar, sem er örn, en er svo skelfilega óheppinn að vera lofthræddur. Hann þráir auðvitað heitt að fljúga um loftin blá og með hjálp vinar síns, músarrindilsins, tekst honum að lokum að yfirvinna ótta sinn og fljúga.

Sýningar á leikverkinu í Skagafirði verða á morgun, miðvikudaginn 2. nóvember í Menningarhúsinu Miðgarði. Sýningin fyrir elsta árgang leikskólanna er kl. 9:30 og yngsta árgang grunnskólanna kl. 11.