Lummudagar að hefjast
Nú eru Lummudagar framundan í Skagafirði og er formleg setning á morgun fimmtudaginn 22. júní kl 19:30 á íþróttavellinum á Sauðárkróki. Að setningu lokinni fara fram Crossfitleikar fyrir alla fjölskylduna en þar er blandað saman Crossfit og leikjum. Íbúar eru hvattir til að skreyta hús sín og næsta nágrenni en sömu litir eru og síðustu ár.
Á föstudaginn verður götumarkaðstemming á Skagfirðingabrautinni framan við Táin og Strata, opin vinnustofa í Gúttó og Júdódeild Tindastóls býður fólki að koma í íþróttahúsið og prufa júdó. Íbúar og gestir þeirra eru hvattir til að hafa götugrillið á föstudagskvöldinu og mun Lummupartývaktin verða á ferðinni og ætlar að verðlauna besta götugrillið.
Á laugardagsmorgninum getur unga kynslóðin farið í hoppukastala við sundlaugina og skoðað slökkviliðsbíla við Safnahúsið en eftir hádegi færist dagskráin í gamla bæinn. Margar verslanir og önnur fyrirtæki bjóða í lummukaffi og götumarkaður verður í gamla bænum. Íþróttaálfurinn og Solla stirða koma á Kirkjutorgið kl 14 og Jónas Sig. Kl 15 og endar dagskráin á fjölskyldudansi á Kirkjutorginu kl 16:30.
Á sunnudaginn verður opin vinnustofa í Gúttó og trúar-jóga í Sauðárkrókskirkju.
Gleðilega Lummudaga!