Fara í efni

Mælavæðing þéttbýliskjarna í Skagafirði

13.02.2014

Í gær var staðfest í sveitarstjórn samþykkt veitunefndar á mælavæðingu þéttbýliskjarna í Skagafirði. Um er að ræða innleiðingu rennslismæla sem mæla notkun á heitu vatni, í stað hemla sem víða eru í hitagrindum. Fyrirhugað er að ráðast í útboð á leigu á ríflega 1600 mælum sem settir verða upp í áföngum á næstu fjórum árum. Gert er ráð fyrir að Skagafjarðarveitur leigi mælana til a.m.k. 12 ára, sem er löggildingartími þeirra. Mælarnir verða útbúnir með fjarálestrarbúnaði sem gjörbyltir söfnun álestra þar sem aðeins þarf að keyra um götur til að safna álestrum í stað þess að fara í hvert hús og lesa af mæli. Notkunarmæling þessi mun valda breytingum á kostnaði hjá viðskiptavinum, bæði til hækkunar og lækkunar. Fer það eftir því hvort notendur hafa keypt hæfilegt, naumt eða ríflegt vatn til hitunar miðað við stærð húsnæðis og hvort mikil neysluvatnsnotkun hefur verið til staðar. 

Með þessu fylgja Skagafjarðarveitur í kjölfarið á fjölmörgum veitum sem byrjuðu með hemla en hafa skipt yfir í rennslismæla. Er það m.a. tilkomið vegna þess að framleiðslu á eldri hemlum hefur verið hætt og nýir hafa reynst óáreiðanlegri og með hærri bilanatíðni en þeir gömlu, auk þess sem margir viðskiptavinir hafa óskað eftir að kaupa vatn samkvæmt mælingu með fjárhagslegan sparnað í huga. 

Útboðið verður auglýst um komandi helgi og tilboðin opnuð 6. mars nk. Kynningarefni og frekari upplýsingar vegna mælavæðingar verða birtar á heimasíðu Skagafjarðarveitna, www.skv.is, á næstu vikum.   

Skagafjarðarveitur reka í dag 6 hitaveitur, þ.e. Sauðárkróksveitu, Varmahlíðarveitu, Steinsstaðaveitu, Hjaltadalsveitu, Hofsósveitu og Sólgarðaveitu. Heitu vatni á vegum Skagafjarðarveitna er dreift til um 87% heimila í Skagafirði. Nýjasta viðbótin eru tengingar bæja í Hegranesi við hitaveitukerfi Skagafjarðarveitna. Þess má geta að fyrir um ári síðan voru birtir útreikningar Orkustofnunar á húshitun á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu og var niðurstaðan sú að húshitunarkostnaður reyndist lægstur í Skagafirði.