Fara í efni

Mat á skólastarfi í Skagafirði

12.05.2016
Mat á skólastarfi

Fræðsluþjónusta Sveitarfélagsins Skagafjarðar vinnur að verkefni sem ber yfirheitið “Innra og ytra mat í leik- og grunnskólum í Skagafirði” og hófst í júní 2015. Verkefnið er styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn, sem er veittur til tveggja ára, mun standa undir öllum ferðakostnaði og umsýslu verkefnisins og áætluð verklok eru í ágúst 2017. Styrkurinn hefur nú þegar verið nýttur til tveggja ferða starfsmanna Fræðsluþjónustu til Skotlands þar sem innra og ytra mat Skota á skólastarfi hefur verið skoðað í þeim tilgangi að taka upp og innleiða nýjungar á þessu sviði hér heima. Sem kunnugt er hafa skagfirskir skólar notað sjálfsmatsaðferðir Skota frá árinu 1999 og uppfært sjálfsmatskerfið með aðstoð Skota í gegnum árin.

Nýlega voru gefnar út nýjar útgáfur Skota af leik- og grunnskólahluta sjálfsmatsaðferðanna. Þær nefnast á frummálinu How good is our school? fyrir grunnskólann og How good is our early learning and childcare? fyrir leikskólann.

Í fyrri ferð starfsmanna Fræðsluþjónustunnar til Skotlands fengum við að kynnast nýjungum í innra og ytra mati í skoskum leik- og grunnskólum. Samstarfsaðili okkar eru Menntayfirvöld í Skotlandi, Education Scotland, og sáu starfsmenn þeirra um undirbúning og umsýslu vegna heimsóknar okkar. Einnig sóttum við ráðstefnu á þeirra vegum sem haldin er árlega í Glasgow fyrir skólafólk, The Scottish learning festival. Þar fengum við tækifæri til að hlýða á áhugaverð erindi og kynnast góðu verklagi í skólum og frístundastarfi. Fjórða útgáfa af How good is our school?  var formlega gefin þar út.

Aftur voru starfsmenn Fræðsluþjónustu á faraldsfæti í byrjun mars. Líkt og áður sá Education Scotland um að skipuleggja heimsóknina sem nú sneri einkum að vinnu sveitarfélaga í Skotlandi að ytra mati á skólastarfi. Þrjú sveitarfélög kynntu sína vinnu en mikil gróska hefur verið í aðferðum ytra mats á skólastarfi hjá Skotum og ýmsar nýjungar litið dagsins ljós á sveitarstjórnarstiginu varðandi ytra mat. Mat sveitarfélaganna er mjög frábrugðið hinu formlega ytra mati sem er á ábyrgð menntamálayfirvalda og að hluta til byggir það á innra mati skólanna. Lykilhugtökin í allri þessari vinnu eru samvinna allra aðila og geta skólanna til umbóta.

Starfsmenn Fræðsluþjónustu hafa frá því í september 2015 unnið að þýðingu á grunnskólahlutanum og er þeirri vinnu nú lokið með útgáfu handbókar sem nefnist Hversu góður er grunnskólinn okkar? Áætlað er að þýðing á leikskólahlutanum, Hversu góður er leikskólinn okkar?, verði tilbúinn í árslok 2016. Einnig mun starfsfólk Fræðsluþjónustu útbúa sambærilega handbók um innra mat fyrir Tónlistarskóla Skagafjarðar sem byggð verður á skoskum sjálfsmatsaðferðum.

Í undirbúningi er ferð með stjórnendum skólanna næsta haust til Skotlands til að skoða ytra mats aðferðir sveitarfélaga betur með það að markmiði að innleiða þær aðferðir í skólum í Skagafirði.

Það er von starfsmanna Fræðsluþjónustu að verkefnið muni nýtast skólunum í Skagafirði vel til að gera gott skólastarf betra eins og segir í slagorðinu: Aukin gæði náms - meiri lífsgæði.

Fræðsluþjónusta Skagfirðinga