Gæðaáfangastaður 2015 er Skagafjörður
Ferðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að Evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.
Af þessu tilefni er haldin samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu annað hvert ár með nýju þema í hvert sinn, en þema ársins 2015 var matartengd ferðaþjónusta. Sérstök valnefnd yfirfór þær umsóknir sem bárust frá íslenskum áfangastöðum en nefndin var skipuð þeim Guðmundi Jóni Guðmundssyni fulltrúa Beint frá býli, Sigríði Kristjánsdóttur fulltrúa Nýsköpunarmiðstöðvar, Ragnheiði Sylvíu Kjartansdóttur fulltrúa Íslandsstofu og Láru Pétursóttur fulltrúa SAF.
Eftir yfirferð umsókna ákvað valnefnd EDEN verkefnisins á Íslandi að útnefna Sveitarfélagið Skagafjörð sem gæðaáfangastað Íslands 2015 fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörður. Í niðurstöðu valnefndar segir:
„Matarkistan Skagafjörður á sér langa sögu og fyrsta samstarfsverkefni sinnar tegundar á sviði matartengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Má því segja að verkefnið hafi rutt veginn og undirbúið jarðveginn fyrir önnur slík verkefni víða um land og sé því sannkallað frumkvöðlaverkefni. Afurðir verkefnisins hafa verið margar og fjölbreyttar í gegnum tíðina, en þar má m.a. nefna árlega Hrossaveislu, fyrirlestra og námsefni á vegum Hólaskóla og matreiðslubókina Eldað undir bláhimni. Nefndin telur verkefnið vel að heiðrinum komið og vonast til að tilnefningin verði til að efla enn frekar matartengda ferðaþjónustu í Skagafirði, sem og á landinu öllu.“
Sjá nánari upplýsingar hér á heimasíðu Ferðamálastofu.