Matarkista Skagafjarðar í Brussel
Sveitarfélagið Skagafjörður var verðlaunað af Ferðamálastofu sem EDEN gæðaáfangastaður Íslands 2015. Í framhaldi af viðurkenningunni fóru fulltrúar sveitarfélagsins á Evrópska ferðamáladaginn sem haldin var í Brussel 16. desember síðastliðinn.
Ferðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Þema ársins var matartengd ferðaþjónusta og markmiðið að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.
Það voru þær Laufey Kristín Skúladóttir og Laufey Haraldsdóttir sem stóðu vaktina fyrir hönd Matarkistu Skagafjarðar og kynntu hvað við höfum upp á að bjóða hér í firðinum. Kynningin mun án efa skila okkur fleiri ferðamönnum í héraðið og vekja athygli á fjölbreytileika í ferðaþjónustutengdri starfsemi í héraðinu.