Fara í efni

Meðaltal fyrir hamingju hæst í Skagafirði

20.06.2024

Skagafjörður skorar hátt í niðurstöðum Deiglunnar, nýútkominni íbúakönnun landshlutanna 2023. Deiglan er sameiginlegt rit atvinnuþróunarfélaganna, Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna á Íslandi.

Þegar heildarsamanburður á milli landssvæða var skoðaður lentu Eyjafjörður, Skagafjörður og Akureyri í þremur efstu sætunum. Samkvæmt könnuninni er meðaltalið fyrir hamingju hæst í Skagafirði og Skagafjörður var í öðru sæti varðandi búsetuskilyrði á landsvísu. Skagafjörður er m.a. einnig í hópi efstu fyrir atvinnuúrval og atvinnuöryggi, málefni fatlaðra, þjónustu við fólk í fjárhagsvanda og afstöðu til námsmöguleika á framhaldsskólastigi. Yfir 70% Skagfirðinga eru með frekar eða mjög jákvætt viðhorf til þjónustu sveitarfélagsins.

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

Búsetuskilyrði
  • Eyjafjörður kom best út, Skagafjarðarsýsla var í öðru sæti og Akureyri í því þriðja.
  • Strandir og Reykhólar, Skaftafellssýslur og A-Húnavatnsýsla komu verst út úr könnuninni.
  • Dalir hækkuðu mest á milli kannana en Þingeyjarsýsla, Eyjafjörður og Hérað og N-Múlasýsla hækkuðu líka mikið á milli kannana. 
  • Mest lækkuðu Vestmannaeyjar, Skaftafellssýslur og A-Húnavatnssýsla. 
  • Samantekin einkunn var á bilinu 3,8 til 7,2 á skalanum 0-10. Það er svipuð breidd og var árið 2020.
Hamingja
  • Íbúar Skagafjarðarsýslu, Héraðs og N-Múlasýslu og Snæfellsness voru hamingjusamastir í könnuninni.
  • Íbúar Stranda og Reykhóla ásamt V-Húnavatnssýslu voru óhamingjusamastir í könnuninni.
  • Ekki var mikill munur á svörun á milli landshluta en það vekur áhyggjur hvað unga fólkið er óhamingjusamara en aðrir íbúar í nánast öllum landshlutum.
Almennt viðhorf til þjónustu sveitarfélagsins
  • Íbúar Vestmannaeyja voru ánægðastir með þjónustu síns sveitarfélags þegar spurt var almennt, því næst íbúar Akureyrar og Rangárvallasýslu ásamt Akranesi og Hvalfirði.
  • Íbúar Stranda og Reykhóla voru óánægðastir með þjónustu sveitarfélags síns, því næst íbúar Fjarðarbyggðar og Voga.

Hér má skoða könnunina í heild sinni.