Molar frá leikskólanum Birkilundi
Í leikskólanum Birkilundi starfar metnaðarfullt starfsfólk sem sinnir starfinu sínu vel og leitast við að gera það besta úr aðstæðum. Í dag býr leikskólinn við þröngan húsakost og starfar í tveimur húsum sem oft getur reynst flókið. Það er því afar ánægjulegt að segja frá því að í framhaldi af sameiginlegri viljayfirlýsingu Sveitafélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps um uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð var skipuð verkefnastjórn sem nú þegar hefur tekið til starfa.
Leikskólastarf er sannarlega lifandi starf og eru samstarf og gott samtal lykilþættir í daglegu starfi í leikskólanum. Niðurstöður starfsmannakönnunar sem lögð var fyrir í mars eru mjög jákvæðar og gefa til kynna að í leikskólanum ríki góður starfsandi og samhent starfsfólk. Einnig sýnir könnunin að fólk hefur áhuga á að auka færni sína og þekkingu á starfinu. Í leikskólanum hefur starfsmannahald verið nokkuð stöðugt og þar eru margir starfsmenn með langan starfsaldur. Fjórir leikskólakennarar starfa við leikskólann. Þeir hafa allir starfað í Birkilundi nánast frá opnun hans fyrir rúmum 20 árum. Mikil þörf er á að fá inn fleiri leikskólakennara enda eiga þeir að fylla tvo þriðju hluta stöðugilda við uppeldi og menntun leikskólabarna. Á undanförnum árum hefur flest ófaglærða starfsfólkið lokið leikskólaliðanámi og einhverjir starfsmenn hafa hug á að fara í áframhaldandi nám. Það er mikilvægt fyrir leikskólann að starfsfólkið skuli sýna menntuninni áhuga þrátt fyrir að erfitt geti orðið að manna leikskólann ef margir eru fjarverandi á sama tíma vegna náms. Vonandi mun aðstaða leikskólans í Varmahlíð batna á næstu árum þannig að vel verði hlúð að börnum og starfsfólki svo stöðugleiki og starfsánægja haldist áfram og menntunarstig leikskólans haldi áfram að aukast. Ánægt og vel menntað starfsfólk skapar betra umhverfi fyrir börnin og skilar meiru til samfélagsins.
Steinunn Arnljótsdóttir leikskólastjóri.
Myndir: Börn að leik í leikskólanum.