Námskeið fyrir starfsfólk sveitarfélagsins
Sveitarfélagið Skagafjörður býður starfsmönnum sínum upp á þrjú námskeið nú í vor og og eru þau liður í fræðsluáætlun sveitarfélagsins. Námskeiðin eru haldin á mismunandi tímum svo flestir geti átt þess kost að nýta sér þau og eru þátttakendum að kostnaðarlausu.
Námskeið í Excel reikniforritinu stendur nú yfir og er vel sótt, tveir hópar eru á námskeiði þessa dagana og sá þriðji verður síðar í apríl. Námskeiðið er 20 kennslustundir, kennt er tvisvar í viku, tvo tíma í senn í sjö skipti. Á námskeiðinu er farið í grunnþætti forritsins s.s. uppsetningu á töflum og reikningsdæmum, settar upp formúlur, reitir forsniðnir, notuð innbyggð reikniföll og tilvísanir ásamt ýmsu fleiru sem þetta sniðuga reikniforrit hefur upp á að bjóða.
Námskeiðið er í samvinnu við Farskóla Norðurlands vestra og leiðbeinendur eru Jóhann Ingólfsson og Þórey Gunnarsdóttir.