Norræni skjaladagurinn
Næstkomandi laugardag þann 12. nóvember verður samkoma í Safnahúsi Skagfirðinga í tilefni Norræna skjaladagsins. Þennan dag kynna íslensku skjalasöfnin starfsemi sína og er yfirskrift dagsins „Til hnífs og skeiðar“ og tengist matvælum í víðum skilningi, þ.e. allt sem viðkemur matvælum, öflun fæðu, verkun, úrvinnslu, umsýslu og neyslu.
Dagskráin hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga hefst kl 15 þar sem Kristján Eiríksson frá Fagranesi heldur fyrirlestur sem hann nefnir Drangey, Hólastóll og flekaveiðar og opnuð verður ljósmyndasýningin Drangey - matarkista Skagfirðinga.
Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl af ýmsu tagi eiga erindi á skjalasöfn. Því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn, eða Þjóðskjalasafn Íslands, ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við, eða vill koma í örugga vörslu
Sjá nánar á www.skjaladagur.is/um-skjaladaginn/.