Fara í efni

Nr. 1 Umhverfing

30.06.2017
Auglýsing sýningarinnar Nr. 1 Umhverfing

Á morgun, laugardaginn 1. júlí, verður opnuð myndlistarsýningin Fyrsta Umhverfing í Safnahúsinu og Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki.

Á sýningunni sýna 13 myndlistarmenn fjölbreytt verk. Sýningin í Safnahúsinu verður opin alla virka daga til 10. september frá kl. 11-18 og sýningin á Heilbrigðisstofnuninni alla virka daga til 10. september frá kl. 11-16.

Meginmarkmið sýningarinnar eru tvö, þ.e. að færa nútímamyndlist nær almenningi með því að setja upp listaverk í tengslum við aðra menningarstarfsemi á svæðinu en einnig í óhefðbundið sýningarrými. Jafnframt að stofna til samstarfs milli listamanna úr borginni og listamanna sem búa í eða tengjast byggðarlaginu. Sýningunni er ætlað að efla jafnræði í menningaraðgengi landsmanna. Það eru mannréttindi að allir hafi aðgang að nútímalist í nærumhverfi sínu.
Hitt markmið verkefnisins er að skapa umræðu um tilgang lífs og lista. Teflt verður saman ólíkum listamönnum sem vinna í mismunandi efni, og fást við fjölbreytileg viðfangsefni.

Gunnsteinn Björnsson formaður menningarmálanefndar Skagafjarðar opnar sýninguna í Safnahúsinu kl. 14 á morgun. Þaðan verður haldið yfir á Heilbrigðisstofnun þar sem boðið verður upp á léttar veitingar. Við hvetjum alla til að kynna sér þessa mögnuðu sýningu.