Nýr deildarstjóri fornleifadeildar
Brenda Prehal hefur verið ráðin sem deildarstjóri fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga. Brenda er doktorsnemi við CUNY, The City University of New York, og er rannsóknarefni hennar heiðnir greftrunarsiðir á Íslandi. Brenda hefur reynslu af fornleifarannsóknum víðs vegar um landið frá árinu 2010, m.a. á Vestfjörðum, Mývatni og í Reykjavík, hún hefur einnig stundað fornleifarannsóknir í Noregi og á Skotlandi, auk þess sem hún hefur starfað við kennslu í fornleifafræði við CUNY háskólann í New York.
Brenda hefur hlotið fjölda styrkja og námsstyrkja, má þar einna helst nefna styrk frá Stofnun Leifs Eiríkssonar árið 2015. Hún er meðlimur í NABO samtökunum, North Atlantic Biocultural Organizantion. Hún er með BA-gráðu í samskiptum, tvær mastersgráður frá CUNY, og er sem fyrr segir að ljúka doktorsgráðu frá sama skóla.
Rannsóknarsvið hennar eru siðvenjur og trúarbrögð; útfara- og greftrunarsiðir; víkingaöldin og miðaldir; þverfaglegt samstarf; og íslenskar bókmenntir frá miðöldum. Þá finnst henni skemmtilegt að læra í íslensku, sem gengur vel.
Brenda mun taka til starfa hjá safninu í júnímánuði og hlakkar til að flytja í Skagafjörðinn, ásamt eiginmanni sínum Ingva Erni Snorrasyni húsasmiði og 6 mánaða dóttur þeirra.