Nýr leikskólastjóri í Leikskólanum Tröllaborg
Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir var ráðin í starf leikskólastjóra hjá Leikskólanum Tröllaborg 1. ágúst sl. Jóhanna tók við starfi leikskólastjóra af Önnu Árnínu Stefánsdóttur sem gengt hefur starfi leikskólastjóra Tröllaborgar í hartnær þrjá áratugi. Jóhanna lauk B.Ed. prófi í leikskólakennarafræðum frá kennaradeild Háskólans á Akureyri árið 2006. Hún lauk einnig diplómu í menntunarfræðum frá kennaradeild Háskólans á Akureyri með áherslu á stjórnun í skólastofnunum árið 2008 og fékk þá um leið leyfisbréf sem grunnskólakennari. Jóhanna hefur einnig stundað viðbótardiplómanám í faggreinakennslu í náttúrufræði fyrir starfandi grunnskólakennara við Háskóla Íslands. Jóhanna starfaði um sjö ára skeið sem almennur starfsmaður og síðar leikskólakennari við Leikskólann Tjarnarás í Hafnarfirði. Hún hefur gengt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum, s.s. stöðu trúnaðarmanns grunnskólakennara í FG og tekið þátt í ýmsum sjálfboðaliðastörfum. Hún lauk einnig tölvu- og rekstrarnámi frá Rafiðnaðarskólanum árið 1997. Jóhanna Sveinbjörg hefur starfað sem grunnskólakennari í Grunnskólanum austan Vatna undanfarin sex ár. Alls sóttu þrír einstaklingar um starf leikskólastjóra Tröllaborgar.
Jóhanna Sveinbjörg er boðin hjartanlega velkomin til starfa á nýjum vettvangi í Sveitarfélaginu Skagafirði.