Fara í efni

Öryggi á opinberum leiksvæðum gott

09.06.2017
Mynd: Leikskólinn Ársalir

Á vef Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra er sagt frá því að fullyrt hafi verið í sjónvarpsfréttum þann 5. júní sl að ástand leiktækja á opinberum leiksvæðum, m.a. leikskólum væri í molum. Þessar fullyrðingar eru til þess fallnar að valda foreldrum barna óþarfa ótta vegna þess að þær standast ekki nánari skoðun.

Þá segir í fréttinni að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga skoði alla leikskóla landsins reglulega og hafa nokkrir heilbrigðisfulltrúar sérhæft sig í öryggismálum leikvalla og - tækja.  Liður í opinberu eftirliti er að fara yfir skráningar á slysum og óhöppum í leikskólum og er ekkert þar að finna sem gefur til kynna að alvarlegum slysum á leikskólum hafi fjölgað til muna.  Heilbrigðiseftirlitið er víða í góðu sambandi við lækna heilbrigðisstofnanna vegna mála sem snúa að eftirlitinu.  Engin ábending hefur borist frá Heilbrigðisstofnunum á svæðinu, sem snýr að slysagildrum á leikskólum.  Í leikskólum starfa vel menntaðir leikskólakennarar sem hafa mjög góða þekkingu á þeim þáttum sem snúa að starfi og starfsumhverfi leikskóla. Þeir eru vel meðvitaðir um öryggismál og hafa gjarnan forgöngu um úrbætur á þeim þáttum sem þarfnast lagfæringa.  Fyrir utan opinbera eftirlitið og innra eftirlit leikskólanna sjálfra, þá fer fram faggild aðalskoðun á leikvallatækjum og leiksvæðum, í mörgum sveitarfélögum, á sviði faggiltra skoðunarstofa. Aðalskoðun er gerð á grundvelli reglugerðar 942/2002.   

Úrbóta á öryggi leiktækja er hins vegar  helst þörf hjá ferðaþjónum sem hafa ósamþykkt tæki á boðstólnum fyrir heimilsfólk og jafnvel gesti.  Það er nauðsynlegt að móta stefnu hvernig megi koma þeim málum í betra horf og skýra ábyrgð og kröfur til rekstraraðila.