Pure Natura keppir um titilinn Matarfrumkvöðull Norðurlanda
Matarverðlaun Emblu hampa því sem skarar fram úr í hinu norræna eldhúsi: hráefni, matvælum, framleiðsluaðferðum og fólkinu sem stendur á bakvið þetta allt. Markmiðið með verðlaununum er að deila þekkingu og reynslu og vekja athygli á norrænum mat. Auk þess er Emblu ætlað að efla samnorræna matarmenningu og einkenni hennar og auka áhuga á norrænum mat utan Norðurlandanna. Verðlaunin njóta styrks Norrænu ráðherranefndarinnar en Bændasamtök Íslands halda utan um þátttöku Íslands í keppninni.
Matarverðlaun Emblu verða afhent annað hvert ár, í fyrsta sinn í Kaupmannahöfn í ágúst 2017. Alls verða veitt verðlaun fyrir sjö flokka:
- Matvælaiðnaður Norðurlanda 2017
- Hráefnisframleiðandi Norðurlanda 2017
- Norðurlandaverðlaun fyrir mat fyrir marga 2017
- Matarblaðamaður Norðurlanda 2017
- Mataráfangastaður Norðurlanda 2017
- Matvælafrumkvöðull Norðurlanda 2017
- Norðurlandaverðlaun fyrir mat fyrir börn og ungmenni 2017
Við athöfnina í Kaupmannahöfn verður tilkynnt hvar verðlaunin verða afhent næst, árið 2019.
Skagfirska sprotafyrirtækið Pure Natura hefur verið tilnefnt sem fulltrúi Íslands í keppninni og mun keppa um titilinn Matarfrumkvöðull Norðurlanda 2017. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 af Hildi Þóru Magnúsdóttur eftir að hugmynd hennar um þurrkun og nýtingu skjaldkirtla úr sláturdýrum vann til nýsköpunarverðlauna 2015. Markmið Pure Natura er að framleiða hágæða bætiefni og matvæli úr íslensku hráefni: innmat og kirtlum úr íslenskum lömbum, villtum jurtum og grænmeti. Vörurnar innihalda engin aukaefni, soja, glúten, sykur, erfðabreytt efni eða mjólk. Fyrirtækið hefur nú í sölu fjórar tegundir bætiefna. Nánar má lesa um fyrirtækið hér.
Við óskum aðstandenum Pure Natura til hamingju með viðurkenninguna og góðs gengið í keppninni í ágúst.