Ráðherra skoðar nýjar almennar leiguíbúðir á Sauðárkróki
Ásmundur Einar Daðason ráðherra húsnæðismála var í Skagafirði á dögunum og skoðaði framkvæmdir við nýjar almennar leiguíbúðir í Laugatúni á Sauðárkróki. Þar er verið að taka í notkun átta almennar leiguíbúðir í tveimur húsum á vegum Skagfirskra leiguíbúða hses. og eru fjórar íbúðir þegar tilbúnar og búið að afhenda leigjendum. Eru þessar íbúðir liður í uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni sem Ásmundur Einar hefur unnið að í sinni ráðherratíð.
Markmið Skagfirskra leiguíbúða hses. er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laga um almennar leiguíbúðir við upphaf leigu. Þannig er verið að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.