Rafræn klippikort fyrir sorpmóttöku
Uppfært 01.04.23:
Villa hefur komið upp í tenginu við greiðslumiðlara þegar að reynt er að kaupa klippikort til að nota á sorpmóttökustöðvum. Unnið er að lagfæringu og munu sorpmóttökustöðvar taka tillit til þess um helgina.
Þann 1. apríl verður tekið í notkun rafrænt klippikort á móttökustöðvum fyrir sorp í Skagafirði. Hvert heimili fær 16 skipta kort til að nota yfir árið. Skráðir eigendur fasteigna sem fá greiðsluseðla fyrir sorpgjaldi geta sótt kortin inn á https://skagafjardarkort.is/. Valið er 16 skipta klippikort og rafræna innskráningu. Ef innskráður notandi á rétt á kortinu án endurgjalds breytist verðið á kortinu í 0 kr. Athugið að setja þarf kortið í rafrænt veski í símanum svo það virki.
Þeir aðilar sem ekki eru með rafrænt veski geta prentað út klippikortið og látið skanna kóðan á klippikortinu á sorpmóttökustöð. Eftir að klippikortið hefur verið sótt í síma er hægt að deila því áfram á aðra íbúa húsnæðisins til notkunar. Þannig geta fleiri en einn verið með sama klippikortið í símanum sínum.
Þegar komið er með sorp á móttökustöð er kóðinn á kortinu skannaður af starfsmanni móttökustöðvar. Ekkert þarf að greiða fyrir ógjaldskyldan úrgang en tekið er af kortinu fyrir allan gjaldskyldan úrgang. Hvert klipp gildir fyrir allt að 0,25 m3. Á hverju korti eru 16 skipti, sem duga samtals fyrir 4,0 m3.
Að öllu jöfnu ætti hvert kort að duga út árið. En ef kort klárast er hægt að kaupa auka kort á https://skagafjardarkort.is/
Áríðandi er að skoða vel hvaða flokkar eru gjaldfrjálsir og hverjir gjaldskyldir. Sé sorpið flokkað til samræmis við það endist kortið lengur. Góð flokkun miðar að því að sem mest fari í endurvinnslu og eins lítið og mögulegt er til förgunar. Með því að flokka vel stuðlum við að umhverfisvernd og göngum í áttina að sjálfbærara samfélagi.
Mikilvægi flokkunar
Með flokkun til endurvinnslu minnkar magn þess úrgangs sem endar í urðun. Þannig er umhverfið verndað samhliða því sem förgunargjöld lækka fyrir sveitarfélagið.
Megnið af því efni sem kemur inn á móttökustöð er endurnýtt með einum eða öðrum hætti. Þannig er úrgangi breytt í verðmæti og fyrir skil á slíkum úrgangi þarf ekki að greiða. Fyrir annað efni, sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar, þarf að greiða fyrir.
Með því að flokka rétt er komið í veg fyrir sóun verðmæta og tryggt er að eingöngu sé greitt þegar við á.
Klippikortið hjálpar
Tilgangur:
Gera flokkun markvissari og að kostnaður sé greiddur af þeim sem til úrgangsins stofnar.
Góð ráð:
Best er að flokka farminn áður en komið er á móttökustöð. Ef úrgangur kemur blandaður saman (gjaldskylt og ógjaldskylt) þarf að greiða fyrir allan úrganginn.