Rótarý á Íslandi styrkir Vinaliðaverkefni grunnskóla Skagafjarðar um 600.000 krónur
Á umdæmisþingi Rótarý á Íslandi sem haldið var á Sauðárkróki dagana 18.-20. ágúst sl. afhenti Rótarýhreyfingin Vinaliðaverkefni grunnskóla Skagafjarðar 600.000 króna styrk. Það var Selma Barðdal Reynisdóttir, fræðslustjóri Skagafjarðar, sem tók á móti styrknum fyrir hönd grunnskóla Skagafjarðar. Umdæmisþingið fór fram í íþróttahúsinu á Sauðárkróki sem þykir vel við hæfi þar sem umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi er heimamaðurinn Ómar Bragi Stefánsson.
Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna en Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli verkefnisins á Íslandi og sér um innleiðingu þess. Markmið Vinaliðaverkefnisins er jákvæðni og vellíðan en aðalmarkmið Vinaliðaverkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum.
Nemendur í 3. til 7. bekk (misjafnt eftir skólum) velja einstaklinga úr sínum bekk til þess að vera Vinaliðar. Hlutverk Vinaliða er að hafa umsjón með leikjum og afþreyingu í löngu frímínútum.
Í tilkynningu frá Rótarýklúbbnum segir: Í Rótarý er gott að vera og þau gildi sem hreyfingin leggur áherslu á, þjónusta ofar eigin hag, eru afar mikilvæg. Rótarýhreyfingin vill láta gott af sér leiða en á þessu starfsári segjum við Veitum veröldinni von og viljum gera okkar besta til að svo verði. Við munum einnig leggja áherslu á geðheilbrigðismál og ræða þau mál innan klúbba sem utan.
Sveitarfélagið Skagafjörður færir Rótarý á Íslandi bestu þakkir fyrir rausnarlegan styrk.