Sæluvika og sýningin Atvinna, mannlíf og menning um helgina
Nú stendur yfir Sæluvika Skagfirðinga og mikið um að vera í héraðinu. Ljósmyndasýninar eru í Safnahúsinu og Sauðárkróksbakaríi, sýning á olíumálverkum í KK Restaurant, myndlistarsýning Sólons í Gúttó og sölusýning notenda Iðju-hæfingar í Landsbankanum.
Í dag verður félagsskapurinn Pilsaþytur með útskriftarathöfn í Hóladómkirkju kl 17 sem er öllum opin og gestir hvattir til að mæta í þjóðbúningum. Leikfélagið sýnir farsann Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan í Bifröst kl 20 í leikstjórn Ingridar Jónsdóttur.
Sýningin Atvinna, mannlíf og menning verður opnuð í íþróttahúsinu á Sauðárkróki á morgun laugardag kl 10 en þar verða félagasamtök, fyrirtæki, ferðaþjónustuaðilar og fleiri að kynna sína starfsemi í Skagafirði.
Formleg setningarathöfn er kl 12 þar sem verða flutt ávörp, karlakórinn Heimir tekur lagið og sýning verður á íslenskum þjóðbúningum og íslenskri hönnun. Málstofur verða báða sýningardagana en sýningin er opin til kl 17 á laugardeginum og kl 10-16 á sunnudeginum. Einnig verður haldið upp á þau tímamót að Sveitarfélagið Skagafjörður á 20 ára afmæli á þessu ári.
Á laugardeginum verður opið hús í Árskóla, afmælishátíð Karlakórsins Heimis í Miðgarði og dansleikur á Mælifelli ásamt því að listsýningarnar verða opnar.
Á sunnudaginn verða listsýningarnar opnar, flóamarkaður verður í félagsheimilinu Melsgili, bíómyndin Víti í Vestmannaeyjum verður sýnd í Króksbíói og leikfélagið verður með sýningu í Bifröst um kvöldið.
Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi á Sæluviku.
Góða skemmtun!