Fara í efni

Sæluvika Skagfirðinga 2015 sett

27.04.2015

Sæluvika Skagfirðinga 2015 var formlega sett í Húsi frítímans í gær, sunnudaginn 26. apríl.

Það var Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem setti Sæluvikuna að þessu sinni. Kom m.a. fram í máli Stefáns að þegar flett væri í gegnum dagskrárrit Sæluviku mætti sjá að hátt í 100 viðburðir eru haldnir í Sæluviku, og dagana á undan sem oft eru nefndir Forsæla. Þegar haft væri í huga að þeim til viðbótar væru nokkrir atburðir haldnir í tengslum við Sæluviku sem ekki hefðu borist í tæka tíð til að vera með í dagskrárritinu, þá væru á annað hundrað viðburðir haldnir í sumarbyrjun í Skagafirði í tengslum við Sæluviku Skagfirðinga. Samfélög væru ekki síst metin út frá menningarlífi sínu og því gætum við Skagfirðingar borið höfuðið hátt í þeim efnum og verið ánægð með að samfélag okkar væri byggt traustari stoðum fyrir tilstuðlan lista- og menningarlífs í firðinum.

Að setningarávarpi loknu lék Rannveig Lilja Ólafsdóttir, nemandi við Tónlistarskóla Skagafjarðar tvö lög ásamt kennara sínum Rögnvaldi Valbergssyni.

Páll Friðriksson kynnti svo úrslit í Vísnakeppni Safnahússins sem er einn þeirra liða sem hefur átt fastan sess í Sæluviku Skagfirðinga. Að þessu sinni sendu alls tuttugu og sex vísnavinir, botna og/eða vísur, inn í keppnina og er það um 150% aukning frá fyrra ári.

Að þessu sinni var besti vísubotn keppninnar á þessa leið:

Sé ég blik við sjónarrönd
Sæluvika kemur.
Ör og kvikur óþekkt lönd
andinn hiklaust nemur.

Eigandi botnsins er Guðmundur Kristjánsson á Akranesi.

Besta vísan um Skagfirðinginn dæmigerða hljómar svo:

Í svipnum greini létta lund
lifnar á gleðifundum.
Leikur brag á lífsins stund
lætur skeiða á grundum.

Eigandi hennar er hestamaðurinn kunni af Króknum, Guðmundur Sveinsson.

Dómnefnd óskar vinningshöfum til hamingju með árangurinn og þakkar jafnframt þátttakendum fyrir framlag þeirra til keppninnar.