Fara í efni

Sæluvika Skagfirðinga og Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2019

09.04.2019
Mynd frá setningu Sæluviku 2017

Sæluvika, lista- og menningarhátíð Skagfirðinga verður að þessu sinni haldin dagana 28. apríl til 4. maí. Sæluvika Skagfirðinga er ein elsta menningarhátíð landsins en í Sæluviku er jafnan boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá víðs vegar um Skagafjörð. Í ár stefnir í glæsilega dagskrá í Sæluviku og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2019

Nú óskum við eftir liðsinni íbúa sveitarfélagsins og hvetjum þá til að senda inn tilnefningar fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2019, en í ár verða Samfélagsverðlaun Skagafjarðar veitt í fjórða sinn á Sæluviku. Verðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.

Þrjár leiðir eru til þess að senda inn tilnefningar. Hægt er að senda inn tilnefningu með því að smella hér, senda tölvupóst á netfangið sigfusolafur@skagafjordur.is eða skila inn skriflega í afgreiðslu Ráðhússins á Sauðárkróki. Frestur til þess að skila inn tilnefningum er til og með 22. apríl.