Fara í efni

Sæluvika Skagfirðinga, Samfélagsverðlaun og atvinnulífssýning

14.03.2018
Frá vígslu Hannesarskjóls í Sæluviku 2017

Sæluvika

Lista- og menningarhátíð Skagfirðinga verður að þessu sinni haldin dagana 29. apríl til 5. maí 2018. Sæluvika Skagfirðinga er ein elsta menningarhátíð landsins en í Sæluviku er jafnan boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá víðs vegar um Skagafjörð.

Þeim sem hafa áhuga á að setja upp viðburð í Sæluviku og vilja auglýsa hann í Sæluvikudagskrá sem Sveitarfélagið Skagafjörður gefur út, er bent á að hafa samband við Bryndísi Lilju Hallsdóttur; bryndisl@skagafjordur.is eða í síma 455-6000, fyrir 25. mars 2018.

 

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2018

Þá er einnig óskað eftir tilnefningum fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2018. Verðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.

Tilnefningar má senda á netfangið sigfus@skagafjordur.is eða skila inn skriflega í afgreiðslu Ráðhússins á Sauðárkróki. Þær þurfa að berast fyrir fimmtudaginn 5. apríl nk.

 

Atvinnulífssýning

Ákveðið hefur verið að halda atvinnulífssýningu í íþróttahúsinu á Sauðárkróki dagana 5.-6. maí nk. Sýningin verður með sama sniði og fyrri sýningar en sú síðasta var haldin árið 2014. Samhliða sýningunni verður haldið upp á 20 ára afmæli Sveitarfélagsins Skagafjarðar en í ár eru 20 ár síðan 11 sveitarfélög í Skagafirði sameinuðust í eitt.

Sýningin verður opin á laugardegi frá kl. 10-17 og sunnudegi frá kl. 10-16. Aðgangur að sýningunni verður ókeypis.

Sveitarfélagið hvetur þá sem hyggjast leigja bás á sýningunni að fara strax að huga að því hvort endurnýja þurfi kynningarefni og annað slíkt fyrir sýninguna.

Nánari upplýsingar má finna hér.