Sameiginleg bókun sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um Hálendisþjóðgarð
Á fundi byggðarráðs í gær þann 20. janúar var lögð fram sameiginleg umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Húnavatnshrepps, Húnaþings vestra og Akrahrepps um framvarp til laga um Hálendisþjóðgarð sem er til kynningar á samráðsgátt stjórnvalda.
Sveitarfélögin hafa fjallað um málið á fyrri stigum og leggjast gegn framgangi frumvarpsins í núverandi mynd. Sveitarfélögin eru landstór en mörk þeirra liggja á Langjökul, Hofsjökul og Kjöl og tillögur nefndar um undirbúning Miðhálendisþjóðgarðs gera ráð fyrir að stór landsvæði sveitarfélaganna falli innan þjóðgarðs. Þau svæði hafa verið í umsjón sveitarfélaganna vegna nálægðar og stöðu afréttarmálefna síðustu árhundruð. Á síðustu áratugum hefur ábyrgð og umsjón sveitarfélaga verið formfest með auknu stjórnsýslulegu hlutverki, t.d. á sviði skipulagsmála.
Á fundi byggðarráðs var umsögnin samþykkt með tveimur atkvæðum Stefáns Vagns Stefánssonar (B) og Gísla Sigurðssonar (D). Ólafur Bjarni Haraldsson (BL) óskar bókað að hann styðji framangreinda umsögn. Bjarni Jónsson (Vg og óháð) óskar bókað að Vg og óháð standi ekki að umsögninni.