Fara í efni

Samningur um samstarf Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Félags eldri borgara í Skagafirði undirritaður

12.11.2019
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri og Helga Sigurbjörnsdóttir f.h. Félags eldri borgara í Skagafirði takast í hendur við lok undirritunar.

Sveitarfélagið Skagafjörður og Félag eldri borgara í Skagafirði undirrituðu nýverið samstarfssamning. Með samningi þessum er verið að staðfesta óformlegt samstarf sem verið hefur um árabil.

Samningurinn byggir á hugmyndafræði um valdeflingu, sem felst fyrst og fremst í því að skapa þær ytri aðstæður sem þarf til að efla frumkvæði, sjálfstæði og áhuga og auka virkni og þátttöku eldri borgara í samfélaginu.

Með samningnum lýsa Sveitarfélagið Skagafjörður og FEBS vilja sínum til að taka höndum saman um að tryggja eldri borgurum í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi aðgang að eins góðu félags- og tómstundastarfi og völ er á hverju sinni (sbr. 12. grein samstarfssamnings sveitarfélaganna). Markmiðið er að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins.

Sveitarfélagið Skagafjörður leggur FEBS til aðstöðu í Húsi frítímans undir starfsemi félagsins. Skilyrði eru fyrir því að starfsemin í Húsi frítímans sé opin öllum eldri borgurum í Skagafirði. Sveitarfélagið tekur þátt í ráðgjöf og fræðslu í samráði við félagið og getur einnig veitt aðstoð við ráðningu verktaka til að halda einstök námskeið.

Fjárhagslegur stuðningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar við FEBS ákvarðast við gerð fjárhagsáætlunar hvers árs og er eftirfarandi: 

  • Húsleigustyrkir vegna félagsstarfs í Húsi frítímans og Hofsósi
  • Fjárhagsstyrkir vegna félagsstarfs í Húsi frítímans, félagsstarfs að Löngumýri og félagsstarfs á Hofsósi
  • Laun starfsmanns í Húsi frítímans
  • Auglýsingar um starfsemi FEBS

Auk ofangreinds veitir Sveitarfélagið Skagafjörður eldri borgurum í sveitarfélaginu margháttaðan stuðning þeim að kostnaðarlausu, svo sem;

  • Aðgang að íþróttamannvirkjum í eigu sveitarfélagsins
  • Aðgang að bókasöfnum sveitarfélagsins
  • Aðgang að styrkumsóknum í Uppbyggingarsjóð SSNV sem Sveitarfélagið Skagafjörður greiðir til

Sveitarfélagið Skagafjörður er þátttakandi í Heilsueflandi samfélagi, verkefni embætti landlæknis, og hvetur eldri borgara til að nýta sér þá aðstöðu og þjónustu sem í boði er.

Félag eldri borgara mun koma að skipulagningu starfseminnar með sveitarfélaginu í þeim tilgangi að efla starfsemina eftir þörfum og virkja áhuga og frumkvæði eldri borgara til ánægulegrar samveru. FEBS mun vinna með sveitarfélaginu að því að hvetja eldri borgara til að njóta félagslífs og sækja þá þjónustu sem í boði er af hálfu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. 

FEBS mun, eins og hingað til, reka að eigin frumkvæði margháttaða tómstunda- og félagsstarfsemi fyrir eldri borgara og sjá um að kynna og auglýsa starfsemi sína.

Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn verði tekinn til umræðu og hugsanlegrar endurskoðunar í september ár hvert.

 Eftirfarandi myndir voru teknar við undirritun samningsins: