Samstarfssamningur um 24. Unglingalandsmót UMFÍ undirritaður
Samstarfssamningur, milli Skagafjarðar, UMSS og UMFÍ, um 24. Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki 3.- 6. ágúst n.k. var undirritaður á 103. ársþingi UMSS sem haldið var í Ljósheimum þann 21. mars s.l. Samninginn undirrituðu þeir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar, Gunnar Þór Gestsson formaður UMSS og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ.
Þetta verður í fjórða skiptið sem mótið fer fram á Sauðárkróki en mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli og þeir fjölmörgu sem þau hafa sótt hafa verið öðrum til mikillar fyrirmyndar með allri framkomu hvort sem er í keppni eða leik.