Fara í efni

Setning Sæluviku á sunnudaginn

26.04.2019
Safnahús Skagfirðinga

Sunnudaginn 28. apríl verður formleg setning Sæluviku Skagfirðinga í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Sæluvikan er gamall menningarviðburður en upphaflega kallaðist vikan Sýslufundarvika og þá kom sýslunefnd Skagafjarðarsýslu saman til fundarhalda. Það er fjölbreytt dagskrá framundan næstu dagana enda um flotta lista- og menningarhátíð að ræða.

Dagskráin hefst kl 13 með setningarávarpi Regínu Valdimarsdóttur forseta sveitarstjórnar og afhendingu samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2019. Flutt verða tónlistaratriði, úrslit Vísnakeppni Safnahússins kynnt og opnuð sýning á verkum Kristínar Ragnars myndlistarkonu sem ber yfirskriftina Sýn sem sýnir landslag og náttúru Skagafjarðar.

Ýmsir fleiri viðburðir eru á dagskrá á sunnudaginn, töfrasýning Einars Mikaels í Húsi Frítímans, myndlistarsýningin Litbrigði samfélags 2019 í Gúttó, hátæknisýningin Heimur norðurljósanna í Puffin and friends, félagsvist í Safnaðarheimilinu á Sauðárkróki, tónleikar kvennakórsins Sóldísar í Höfðaborg og frumsýning Leikfélags Sauðárkróks í Bifröst á leikverkinu Fylgd.

Forsælan er hafin og í dag, föstudag, eru í boði dansnámskeið fyrir börn í sal fjölbrautaskólans, Dans Afríka and Iceland, og sögukvöld um Guðrúnu frá Lundi verður í Sólgörðum.

Á morgun, laugardag, er dansviðburður í sal fjölbrautaskólans, keppnin Ísmaðurinn 2019 á skíðasvæði Tindastóls, opnun myndlistarsýningarinnar í Gúttó og leiksýning Leikfélags Hólmavíkur á leikritinu Nönnu systur í Árgarði. 

Dagskrá Sæluviku má nálgast hér.

Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í þeirri fjölbreyttu dagskrá sem framundan er í Sæluvikunni.

Gleðilega hátíð!