Setning Sæluviku í Húsi frítímans
Lista- og menningarhátíð Skagfirðinga, Sæluvikan, verður sett í Húsi frítímans í dag, sunnudaginn 26. apríl kl 14. Flutt verður ávarp, boðið verður upp á tónlistaratriði og kynnt verða úrslit í vísnakeppni Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.
Upphaf Sæluvikunnar má rekja langt aftur í tímann þegar sýslunefnd Skagafjarðarsýslu hélt sína árlegu fundi á Króknum. Þá var ekki fjölbreytt skemmtanalíf eins og er í dag og fundavika sýslunefndar kærkomin tilbreyting í amstri hverdagsins.
Með setningu Sæluviku fara af stað viðburðir um allt héraðið og margir hverjir árvissir. Maddömukot opnar í dag og verður opið á hverjum degi alla vikuna. Sýnd verður myndin Ástríkur á Goðabakka í Króksbíói, bókamarkaður Lafleur, bútasaumssýningin í Kakalaskálanum og spiluð félagsvist í Ljósheimum svo eitthvað sé nefnt. Í félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi verður frumsýnt söngskáldverk, Það er að koma skip, með léttu ívafi í flutningi leikhópsins Frjósamar freyjur og frískir menn og hefst sýningin kl 17. Í Bifröst á Sauðárkróki verður Leikfélag Sauðárkróks með frumsýningu á leikverkinu Barið í brestina í leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar og hefst sýningin kl 20. Það er löng hefð fyrir frumsýningu hjá Leikfélagi Sauðárkróks á upphafsdegi Sæluviku.
Það verður mikið um að vera alla vikuna og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Velkomin á Sæluviku !