Sjómannadagurinn um helgina
Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt um helgina og eru hátíðahöldin á Sauðárkróki á laugardeginum og á Hofsósi á sunnudeginum. Það verður ýmislegt til skemmtunar og kaffisala slysavarnafélaganna verður á sínum stað á báðum stöðum.
Sjávarsælan á Sauðárkróki hefst með dorgveiðikeppni kl 10 og í kjölfarið er skemmtisigling með Málmey SK 1 kl 12 og dagskrá á hafnarsvæðinu fram eftir degi. Það verða hefðbundin skemmtiatriði eins og reipitog og koddaslagur, í boði verða grillaðar pylsur og fiskisúpa, hoppukastali og furðufiskasýning ásamt mörgu fleiru. Kaffisala slysavarnardeildarinnar Drangeyjar og Skagfirðingasveitar verður á Mælifelli kl 12-16.
Um kvöldið verður skemmtun í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem Guðbrandur Guðbrandsson sér um veislustjórn og hljómsveitin Made in sveitin heldur uppi fjörinu fram á nótt.
Dagskráin á Hofsósi hefst kl 12:30 á sunnudeginum við minnisvarðann um látna sjómenn með helgistund. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem í boði verður m.a. dorgveiðikeppni, koddaslagur og sigling. Kaffisala slysavarnardeildarinnar Hörpu hefst kl 15 í Höfðaborg.