Fara í efni

Skagafjarðarveitur skrifa undir verksamning við Frumherja

05.06.2014
Mynd Skagafjarðarveitur

Í gær var undirritaður verksamningur milli Skagafjarðarveitna og Frumherja ehf. vegna mælaleigu.  Ásta B. Pálmadóttir, sveitarstjóri og Örri Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja, undirrituðu samninginn.

Samningurinn er til 12 ára sem er löggildingatími mælanna. Í ár verða settir upp mælar í Hofsós, Hólum, Varmahlíð og Steinsstöðum og á næstu 2-3 árum verða settir upp mælar á Sauðárkróki. Uppsetningu mæla á þéttbýlisstöðum ætti því að vera lokið í síðasta lagi árið 2017. Í heildina verða settir upp ríflega 1.600 mælar.

Mælarnir eru rafeindamælar frá danska framleiðandanum Kamstrup, og eru þeir útbúnir með fjarálestrarbúnaði sem gjörbyltir söfnun álestra þar sem aðeins þarf að keyra um götur til að safna álestrum í stað þess að fara í hvert hús og lesa af mæli. Notkunarmæling þessi mun valda breytingum á kostnaði hjá viðskiptavinum, bæði til hækkunar og lækkunar. Fer það eftir því hvort notendur hafa keypt hæfilegt, naumt eða ríflegt vatn til hitunar miðað við stærð húsnæðis og hvort mikil neysluvatnsnotkun hefur verið til staðar.