Fara í efni

Skagafjörður ekki með í spurningakeppninni Útsvari í vetur

05.09.2016
Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir eru umsjónarmenn Útsvars

Spurningakeppni sveitarfélaga, Útsvar, verður á dagskrá Ríkissjónvarpsins í vetur og er það 10. veturinn í röð sem keppnin fer fram.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ávallt sent vaska og valinkunna liðsmenn til keppninnar sem borið hafa hróður héraðsins vítt og breytt með glæsibrag.

Sveitarfélögin sem keppa í vetur í Útsvari eru 24 talsins eins og hefur verið síðustu ár. Þau átta lið sem komust í fjórðungsúrslit síðasta vetur eru sjálfskrafa með þennan veturinn. Hin sextán eru dregin út eftir stærð sveitarfélaganna.

Því miður var Sveitarfélagið Skagafjörður ekki dregið út að þessu sinni en Skagfirðingar fylgjast þó án efa spenntir með keppninni í vetur og koma tvíefldir til baka að ári liðnu.