Skagafjörður hlýtur styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Nú á dögunum var úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 og gaman frá því að segja að þrjú skagfirsk verkefni hlutu styrk úr sjóðnum í ár. Eru það verkefnin Staðarbjargavík - Hönnun útsýnispalla og stiga, Uppbygging Hóla í Hjaltadal sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og Bætt aðgengi að Sviðsetningu Haugsnesbardaga.
Það var sveitarfélagið sem hlaut styrk að upphæð kr. 13.024.960,- fyrir verkefnið ,, Staðarbjargavík - Hönnun útsýnispalla og stiga“. Styrkurinn er veittur í undirbúnings- og hönnunarvinnu í Staðarbjargavík. Til stendur að hanna útsýnispalla og stiga niður í víkina með það að markmiði að bæta aðgengi, vernda stuðlabergið fyrir átroðningi og tryggja öryggi ferðamanna þar sem bratt er við stuðlabergið, en Staðarbjargavík er gríðarlega fjölsóttur áfangastaður. Til stendur að vinna hönnunina með heimafólki enda bera margir sterkar taugar til þessa fallega svæðis.
Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir sveitarfélagið þar sem hann gerir sveitarfélaginu kleift að halda áfram þeirri vegferða að vinna markvisst að því að byggja upp innviði innan sveitarfélagsins sem styðja við ferðaþjónustu á svæðinu.
Dæmi um þá vinnu sem er í gangi er að sveitarfélagið hlaut styrk árið 2021 fyrir hönnun við Ketubjörg og árið 2022 fyrir framkvæmdir við Ketubjörg sem til stendur að framkvæma nú í sumar. Verkefnið felst í að stór bæta aðgengi og aðstöðu fyrir ferðamenn á svæðinu. Gerð verða tvö bílastæði á tveimur stöðum þar sem svæðið er stórt og mismunandi sjónarhorn á björgin, merkingar og leiðarvísar verða settir víða um svæðið og viðeigandi öryggisráðstafanir verða gerðar við björgin á ákveðnum útsýnissvæðum. Einungis verður notast við efni sem fellur vel að umhverfinu.
Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja. 28 verkefni hljóta styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 fyrir alls 550 milljónir.
Færir sveitarfélagið Framkvæmdasjóði miklar þakkir fyrir styrkinn.
Á myndum hér að neðan sést mikilvægi þess að vernda svæðið við Staðarbjargavík fyrir átroðningi og tryggja öryggi fólks þar sem bratt er við stuðlabergið.